Færsluflokkur: Bloggar
4.4.2013 | 23:01
Hollustu-Berjamuffins
Þessa uppskrift af berjamuffins fann ég líka inn á heilshugar.com en breytti henni aðeins eftir hentugleika. Hún er í hollari kantinum og ætti því að vera efni í ágætis miðviku-nasl:
1 1/4 bolli hveiti
1 1/4 bolli gróft haframjöl
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1 tsk kanill
2 msk matarolía
1/2 bolli mjólk (almond dream)
1/2 bolli af sætuefni (agave sýróp)
1 egg
1 lúka af bláberjum

Múffurnar eru heldur bragðlitlar en alveg ætar. Ég hugsa að ég setji aðeins meira sætuefni næst þegar ég prufa þessa uppskrift, meira af bláberjumog bæti svo jafnvel einhverju öðru við eins og t.d. einhvers konar hnetukurli. Svo er líka hægt að skipta mjólkinni út fyrir jógúrt, t.d. hnetu- og karamellujógúrti. Það verður bara gaman að prufa fleiri útgáfur af þessari uppskrift í framtíðinni ;)
Hér er upprunalega uppskriftin: http://heilshugar.com/?p=496
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2013 | 16:08
Gleðilega Páska
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2013 | 10:35
Parmesankjúklingur á föstudagskvöldi
Í gærkveldi hélt tilraunastarfsemin í eldhúsinu áfram og varð uppskrift af parmesankjúkling sem ég fann inn á mbl.is fyrir valinu að þessu sinni. Í þessa uppskrift þarf:
- 600 g beinlaus kjúklingur
- 2 laukar
- 3 msk hvítlaukur
- 2,5 dl rjómi
- 150 g parmesan, rifinn
- 1dl hvítvín
- 2-3 tsk krydd, t.d. timjan/rósmarín
- ein lúka söxuð basillauf
- smjör og olía
- salt og pipar
Fyrst eru laukarnir fínsaxaðir og kjúklingurinn skorinn í strimla. Svo er smjör og olía hitað saman á pönnu og lauknum skellt út á og hann látinn mýkist og taka á sig smá lit. Þá er hann tekinn af og geymdur en kjúklingnum skellt á pönnuna og hann kryddaður, saltaður og pipraður. Þegar kjúklingurinn er að verða tilbúinn er 1dl hvítvíni hellt út á pönnuna. Svo er kjúklingnum og vökvanum hellt í eldfast mót og laukurinn settur ofan á. Því næst er rjómanum og parmesan ostinum blandað saman og hellt yfir allt hitt áður en mótið er sett inn í ofn á 200°C í 35-40 mínútur. Ég setti svo smá mozarella ost yfir nokkrum mínútum áður en ég tók réttinn út úr ofninum og svo á að setja smá basillauf ofan á en ég setti steinselju og bar réttinn á borð með hvítlauksbrauði.
Rétturinn var bara ágætur, en ég hefði viljað hafa hann aðeins meira creamy og ef ég geri hann aftur á ég örugglega eftir að krydda hann eitthvað öðruvísi og jafnvel bæta einhverju við hann. Hann var hins vegar borðaður með bestu lyst og ekki sakaði að það var svolítið eftir af hvítvíninu ;)
Hér má finna uppskriftina: http://www.vinotek.is/2013/03/07/parmesankjuklingur/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2013 | 18:11
Hollt og gott miðviku-nasl!
Þessa uppskrift fann ég inn á heilshugar.com:
3 bananar (vel þroskaðir)
2 bollar grófir hafrar
1/4 bolli olía
1/2 tsk kanill
1/4 tsk salt
1 bolli saxaðar döðlur
1/2 bolli saxað 70% súkkulaði
Fyrst eru bananarnir settir í skál og stappaðir, svo er öllu hráefninu blandað saman við og hrært saman. Því næst er bökunarpappír settur á plötu og svo er "deigið" sett á plötuna með matskeið (venjulega nóg í 16 kökur). Platan er svo sett inn í ofn og kökurnar bakaðar á 180°C í c.a. 20 mínútur. Leyft að kólna aðeins og svo geymt í krukku (ekki plastpoka).
Þetta er rosalega gott miðviku-nasl ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2013 | 20:36
Kjúklingakoddar og fylling
Í kvöld ákvað ég að prufa aftur kjúklingakoddana þeirra Önnu Sjafnar og Madda frá síðunni þeirra nautnaseggir.wordpress.com
Ég byrjaði á því að skera 2 kjúklingabringur í bita. Svo setti ég smá hveiti í eina skál, 2 hrærð egg í aðra og mulið Special K í þá þriðju. Svo dýfði ég hverjum bita fyrst í hveitið, svo eggin og loks Special K áður en ég raðaði þeim á plötu með bökunarpappír og skellti þeim inn í ofn á 250°C í 10 mínútur.
Fyrir nokkrum árum fann ég mjög góða uppskrift af fyllingu á heimasíðu sem kallast thepioneerwoman.com svo að í gærkveldi reif ég niður nokkrar brauðsneiðar í eldfast mót og lét þær þorna yfir nóttina. Svo þegar kjúklingurinn var kominn inn í ofn skar ég niður 3 sellerýstöngla og einn lauk, setti smjör á pönnu og steikti þá. Svo leysti ég einn kjúklingakraft upp í c.a. 4 bollum af heitu vatni og hellti út á pönnuna þegar laukurinn og sellerýið var farið að brúnast aðeins. Svo bætti ég út í blönduna salt, steinselju, basil, tímían og rósmarín. Ég leyfði þessu að malla aðeins saman á pönnunni og hellti þessu svo ofan á þurru brauðmolana í eldfasta mótinu og blandaði því vel saman.
Svo bjó ég til "flotesaus" sem ég keypti í bréfi til að hafa með. Einnig hafði ég hrásalat sem meðlæti og Páskaöl til drykkju og rann þetta allt ósköp ljúflega niður :)
Bloggar | Breytt 4.4.2013 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2013 | 20:05
Nú verður bakað...
Það var bara kominn tími á "KitchenAid"-kaup! Mig er örugglega búið að langa í svona hrærivél í tvö ár og lét nú loksins verða af því. Ég réttlætti kaupin með því að þetta sé stórafmælisgjöfin mín frá mér (þó það sé rétt rúmur mánuður í afmælið mitt ;).
Í draumum mínum var vélin alltaf eplarauð, en svo var mér bent á að maður verður frekar þreyttur á þeim lit en t.d. klassískum lit eins og hvítum. Ég samþykkti þau rök, fyrst frekar treg til en svo mjög sátt. Hvíti litur tekur sig vel út í eldhúsinu mínu og vélin er þá líka í stíl við "KitchenAid"-blandarann sem ég átti fyrir svo þetta var klárlega góð ákvörðun.
Tryllitækið hefur fengið nafnið "Moby Dick" ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2013 | 21:05
Kjúklingur í kókoshnetusmjörssósu
Í kvöld ákvað ég að elda eitthvað nýtt og spennandi. Ég hafði fundið þessa uppskrift inn á mbl.is sem mér leist svo vel á:
600 g beinlaust kjúklingakjöt skorið í strimla
1 stór púrrulaukur, skorinn í strimla
1 laukur, fínsaxaður
1 rauður chili fínsaxaður
1 dós kókosmjólk
1,5 dl hnetusmjör
1 msk púðursykur
safi úr hálfri sítrónu
1 tsk kjúklingakraftur eða 1 teningur
1 msk panang curry (má sleppa)
væn klípa af chiliflögum
matarolía
salt og pipar
1 pakki asískar eggjanúður
Fyrst er kókosmjólkinni, hnetusmjörinu, púðursykrinum, sítrónusafanum og kjúklingakraftinu blandað saman í pott. Blandan er látin sjóða upp og þá er hitinn lækkaður og hún síðan látið malla á vægum hita á meðan púrrulaukurinn, laukurinn og chili-ið er mýkt upp á pönnu. Því er svo blandað saman við sósuna í pottinum eftir það. Því næst er kjúklingurinn steiktur á pönnu og hann kryddaður með salti, pipar og chiliflögunum. Loks er kjúklinginn færður yfir í pottinn og látinn malla þar í blöndunni á meðan að núðlurnar eru soðnar. Svo eru núðlurnar settar í fat og öllu úr pottinum hellt ofan á.
Ég fór eftir leiðbeiningunum að því undanskildu að ég notaði venjulegar núðlur og sleppti panang curry-inu eins og sagt er að megi gera. Svo vissi ég ekki að chili flögur væri krydd og keypti því chili flögur (snakk) en þær voru bara fínar með ;)
Rétturinn er alls ekki bragðsterkur þrátt fyrir chili-ið heldur ansi ljúffengur. Svo fengum við okkur lífrænt engifergos með og skáluðum fyrir vel heppnuðum rétti!
Hér er hlekkur inn á mbl.is: http://www.mbl.is/smartland/matur/uppskriftir/1576/kjuklingur-i-kokoshnetusmjorssosu/
Bloggar | Breytt 16.10.2013 kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2013 | 12:03
Morgunmatur
Í vikunni datt mér í hug að prufa að búa til mitt eigið múslí í staðinn fyrir að kaupa það tilbúið út í búð.
Á fimmtudaginn skellti ég mér því í búðina og keypti alls konar múslímat: gróft haframjöl, heslihnetukurl, möndlukurl, kókosflögur, 70% súkkulaðispæni, þurrkuð trönuber, þurrkuð gojiber, hunangsgljáða þurrkaða banana og chiafræ.
Í morgun prufaði ég svo að setja smá af hverju þessu út á jógúrtið mitt og þetta smakkaðist bara mjög vel!
Þetta er nú ekki beint ódýrasta fæðið, en mér finnst þetta gera morgunmatinn aðeins meira spennandi og þ.a.l. er þetta gott svona til tilbreytingar á sunnudagsmorgnum. Það er nefnilega stundum svo erfitt að byrja aftur í hollustunni eftir laugardags-svindlið ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)